Hvað er PCOS?

PCOS stendur fyrir polycystic ovary syndrome. Á íslensku er það kallað fjölblöðrueggjastokkaheilkenni.

PCOS er innkirtlasjúkdómur sem veldur hormónaójafnvægi hjá konum.


PCOS er meðal algengustu innkirtlasjúkdóma hjá konum á barneignaraldri  og er leiðandi orsök frjósemisvanda.


PCOS fylgir líka fjöldi annarra einkenna sem geta haft líkamleg og andleg áhrif.

3 helstu merki um PCOS

  • óreglulegar blæðingar – sem þýðir að eggjastokkarnir losa ekki egg reglulega (egglos)
  • of mikið andrógen - mikið magn af „karlkyns“ hormónum í líkamanum, sem getur valdið líkamlegum einkennum eins og auknum hárvexti í andliti eða líkama
  • fjölblöðrueggjastokkar - eggjastokkarnir stækka og innihalda vökvafyllta sekki (eggbú) sem umlykja eggin.


Ef þú kannast við 2 af þessu gætir þú verið með PCOS.

Hormón tengd PCOS

Andrógen


Allar konur framleiða andrógen, sem eru stundum kölluð karlhormón.


Framleiðsla andrógena fer að mestu fram í eggjastokkunum.


Of mikið magn andrógenhormóna veldur einkennum eins og auknum hárvexti, bólum og óreglulegum blæðingum.


Insúlín


Þetta hormón gerir líkamanum kleift að taka upp glúkósa (sykur) inn í frumur líkamans fyrir orku.


Hjá sumum konum með PCOS eru insúlínmóttakarnir á frumunum ekki jafnnæmir og þeir ættu að vera. Þetta getur leitt til hækkaðs blóðsykurs. Líkaminn framleiðir þá enn meira insúlín til að reyna að lækka blóðsykurinn.


Of mikið magn insúlíns í blóði getur valdið aukningu á framleiðslu andrógena.


Prógesterón


Skortur á prógesteróni getur leitt til óreglulegra blæðinga.

Nafnið er ruglingslegt

Heilkennið er kennt við blöðrur sem myndast innan í eggjastokkum sumra kvenna með PCOS.


Þessum blöðrum er oft ruglað saman við blöðrur á eggjastokkum sem eru annað fyrirbæri. Þessar blöðrur sem heilkennið er kennt við eru innan í eggjastokkunum og myndast þegar eggjastokkurinn nær ekki að losa egg úr eggbúunum.


Eggbúsblöðrur í eggjastokkum eru aðeins eitt af fjölda annarra mögulegra einkenna.


Fjölblöðrueggjastokkar lýsir eggjastokkum sem innihalda margar litlar „blöðrur“ rétt undir yfirborði eggjastokkanna.


„Blöðrurnar“ í fjölblöðrueggjastokkum eru ekki hefðbundar blöðrur. Þetta eru í raun eggbú sem hafa ekki þroskast fyrir egglos.


Upphaflega var talið að þessar eggbúsblöðrur valdi ástandinu en nú er vitað að þær eru eitt af einkennunum og ekki allar konur með PCOS fá blöðrur í eggjastokka. Þess vegna er nafnið fjölblöðrueggjastokkaheilkenni ruglingslegt.